Fræðsluefni

Góð ráð fyrir góða hjartaheilsu
Gott að hafa í huga fyrir komu til hjartalæknis

1.Sjúkdómafræðsla:

Hár blóðþrýstingur er mjög algengur sjúkdómur á Vesturlöndum. Allt að 1/3 af fullorðnum á Íslandi eru með háan blóðþrýsting.

Blóðþrýstingur ræðst af samdráttarkrafti hjartans og stífleika slagæðanna. Nýrun spila veigamikið hlutverk í þróun háþrýstings. Þannig verka flest lyf sem notuð eru við háþrýsting á nýru, samdrátt hjartans og á æðakerfið. Mjög oft þarf að nota fleira en eitt lyf til á ná viðunandi blóðþrýstingsstjórn.

Blóðþrýstingur er mældur í mmHg (millimetrum kvikasilfurs) sem er gömul eining. Oft er talað um efri mörk og neðri mörk blóðþrýstings. Efri mörkin er hærri talan og samsvarar hæsta blóðþrýstingnum í æðakerfinu. Neðri mörkin er hins vegar lægsti þrýstingurinn í slagæðakerfinu. Þetta er oft skrifað 120/80 (sem er sagt 120 yfir 80) og er 120 þá efri mörkin og 80 neðri mörkin. Bæði gildin eru í mmHg.

Eðlilegur blóðþrýstingur hjá fullorðnum er undir 140/90, en hjá mjög fullorðnum (eldri en 80 ára) er miðað við 150/90. Þetta eru efri viðmiðunarmörkin, en helst á blóðþrýstingur að vera frá 90/60 til 120/80 til að lágmarka fylgikvilla háþrýstings.

Háþrýstingur er mjög oft alveg einkennalaus og er því hætt við að vandamálið greinist ekki fyrr en afleiðingar háþrýstings koma fram. Þegar einkenni eru til staðar getur það lýst sér sem þrýstingur í brjósti, höfuðverkur, hraður hjartsláttur, þungur andardráttur og mæði.

Afleiðingar háþrýstings geta verið m.a. hjartaáföll, hjartabilun, æðagúlar, nýrnasjúkdómar, heilaæðasjúkdómar, heilaáföll, elliglöp, slagæðasjúkdómur í útlimum og margt fleira.

Áhættuþættir eru meðal annars sterk ættarsaga, offita, mikil saltneysla, notkun lakkrís, hreyfingarleysi, óhófleg áfengisneysla, reykingar, svefntruflanir (kæfisvefn) og hækkandi aldur (sér í lagi >65 ára)

Sjaldnast finnst undirliggjandi orsök fyrir háum blóðþrýsting, en það er oftast í ungum einstaklingum. Talið er að hjá um 5% finnist undirliggjandi orsök sem hægt er að leiðrétta. Hinir 95% þurfa lífstílsbreytingu og/eða lyfjameðferð.

Blóðfitur sem hjartalæknar mæla í blóði eru oftast:  heildarkólesteról, LDL kólesteról, HDL kólesteról og þríglýseríðar (TG). Það er minni áhætta á kransæðasjúkdómi og æðakölkun ef LDL kólesteról er lágt og sömuleiðis er fylgni milli hárra þríglýseríða og æðakölkunarsjúkdóms. Hátt HDL virðist vera verndandi. 

Almennt er talið að um blóðfituröskun sé að ræða þegar gildi á kólesteróli (LDL) og TG eru verulega hækkuð. Mismunandi viðmiðunargildi eru til staðar, og fer meðal annars eftir undirliggjandi áhættuþáttum viðkomandi. Þannig getur sama LDL kólesteról verið eðlilegt hjá heilbrigðum 40 ára einstaklingi, en verulega hækkað hjá einstaklingi með kransæðasjúkdóm eða sykursýki. Þannig þarf að miða meðferð með kólesteról-lækkandi lyfjum eftir undirliggjandi áhættu.

Ef kólesteról gildi eru mjög há getur verið um arfgengan sjúkdóm að ræða og er þá oft mikil ættarsaga um hjarta og æðasjúkdóma. Meðferð með kólesteról lækkandi lyfjum getur dregið verulega úr líkum á hjartaáfalli hjá slíkum einstaklingum ef vandamálið uppgötvast nægilega snemma.

Meðferð blóðfituröskunar getur verið margþætt. Þar er fyrst að nefna lífstílsbreytingar, sem geta haft heilmikil áhrif ef mataræði er ábótavant eða hreyfing lítil. Ef lyf eru notuð, þá er hafin meðferð með s.k. statín lyfjum (sjá kafla um meðferðir). Hjá einstaka sjúklingi getur þurft að grípa til sprautumeðferðar með sérhæfðum mótefnum sem lækka LDL kólesteról. Þessi lyf virka öðruvísi en statín og er því hægt að nota hjá þeim fáu sjúklingum sem ekki þola statín lyf.

Sykursýki er sjúkdómur þar sem sykur í blóði er of hár. Það er hormón í líkamanum sem stjórnar blóðsykrinum í okkur og nefnist það insúlín. Sykursýki getur komið upp bæði ef líkaminn framleiðir ekki nægilegt magn af insúlíni, og eins ef frumur líkamans verða ómóttækilegar fyrir áhrifum insúlíns, en það er nefnt insúlínviðnám.

Það eru til 2 megin gerðir af sykursýki: 

Týpa 1: Þessi tegund sykursýkis orsakast af því að ónæmiskerfi líkamans ræðst á og eyðileggur frumurnar sem framleiða insúlín. Þessir sjúklingar eru oftast ungir við greiningu og þurfa sprautur með insúlíni til að geta lifað eðlilegu lífi. Týpa 1 sykursýki tengist ekki offitu eða slæmum lífsstíl.

Týpa 2: Við þessa tegund getur bæði verið aðeins skert framleiðni, en fyrst og fremst aukið viðnám líkamans gegn insúlíni. Þessi tegund sykursýkis sést aðallega í fullorðnum og tengist oft lífstíleins og yfirþyngd og hreyfingarleysi, þó að það sé alls ekki algilt. Um 90% af öllum sykursjúkum á Íslandi eru með þessa gerð sykursýkis. Þessi tegund sykursýkis hefur gjarnan verið nefnd fullorðinssykursýki í almennu tali.

Þar að auki er annar stór hópur af fólki sem er með hækkaðan blóðsykur en er ekki komið með dæmigerða sykursýki. Þessi hópur er í verulega aukinni áhættu að þróa sykursýki innan fárra ára. Besta forvörnin hjá þessum hópi er að breyta um lífsstíl, með bættu mataræði og aukinni hreyfingu.

Einkenni sykursýkis geta verið margs konar, en dæmigerð einkenni eru til dæmis aukið þorstlæti, aukin þvaglát, þreyta, viktminnkun/vöðvarýrnun, sveppasýkingar, sár sem gróa hægt og illa og skert sjón.

Ef þig grunar að þú gætir verið með sykursýki, þá er auðvelt að mæla fastandi blóðsykur (eftir næturlanga föstu) og langtímablóðsykur sem sker úr um hvort um sykursýki sé að ræða

Gáttatif er algengur sjúkdómur og fer algengið vaxnandi með aldri. Margir fá gáttatifið í köstum sem koma og fara en aðrir hafa stöðugt gáttatif.

Gáttatif er hjartsláttartruflun sem á upptök sín í vinstri gátt hjartans. Aukaslög frá lungnabláæðum sem tengjast vinstri gátt hjartans eiga oftast upptökin að gáttatifi. Gáttatif er nokkurs konar „rafstormur“ í gáttum hjartans. Gáttirnar slá hratt og óreglulega og enginn eiginlegur samdráttur þeirra á sér stað. Við slíkar aðstæður geta blóðtappar myndast. Alvarlegasti fylgikvilli gáttatifs er heilablóðfall orsakað af þessum blóðtöppum.

Um þriðjung heilablóðfalla má rekja til gáttatifs. Auk þess eru einstaklingar með gáttatif í aukinni hættu á hjartabilun. Miðast meðferð gáttatifs fyrst og fremst að því að finna þá einstaklinga sem í mestri hættu eru og fyrirbyggja blóðtappamyndun með blóðþynningu, slík meðferð er oftast ævilöng.

Áhættan fyrir gáttatifi eykst með aldri og er framan af ævinni algengari hjá körlum en konum. Aðrir áhættuþættir eru hár blóðþrýstingur, sykursýki, offita, kæfi¬svefn, kransæðasjúkdómur, lungnasjúkdómar, skjaldkirtilsvandamál, hreyfingarleysi, áfengisneysla o.fl. Þar sem stór hluti einstaklinga með gáttatif er einkennalaus hafa farið fram ýmis átök í að finna sjúkdóminn með skimun. Þetta hefur þó ekki verið gert hérlendis.

Einkenni eru mismunandi milli einstaklinga. Algengustu einkennin eru óþægilegur hjartsláttur en sumir finna ekki fyrir óþægindum frá hjartslætti, finna þess í stað fyrir þreytu, slappleika, mæði, eða brjóstverkjum.

Það má skipta meðferð við gáttatifi í þrjá meginflokka. Hindra heilablóðföll, hindra versnandi hjartastarfsemi (hjartabilun) og meðhöndla einkenni. Ekki allir einstaklingar með gáttatif þurfa blóðþynnandi meðferð til að fyrirbyggja blóðtappa en það fer eftir aldri og undirliggjandi áhættuþáttum. Ávallt þarf að fara fram áhættumat við greiningu. Sé gáttatifið viðvarandi getur í sumum tilvikum verið ástæða til að framkvæma s.k. rafvendingu, þar sem fólk er svæft stutta stund og gefið rafstuð á brjóstkassann sem endurstillir takt hjartans.

Oft fara þessir einstaklingar aftur í gáttatif og er því þörf á langvinnri lyfjameðferð til að halda takti til lengri tíma, ýmist með lyfjum eða brennsluaðgerð.

Cordarone

Cordarone er án efa öflugasta lyfið sem notað er gegn takttruflunum. Lyfið er aðallega notað við gáttatifi þegar önnur meðferð hefur ekki skilað árangri eða frábending finnst. Það er þó einnig notað við ýmsum öðrum hjartsláttartruflnum þá sér í lagi takttruflunum í sleglum. Lyfið hefur aðallega áhrif á kaliumgöng í hjartanu og lengir leiðnitíma rafboða.

Mikilvægt er að áður en meðferð hefst að upplýsa sjúklinga um mögulega fylgikvilla en þeir eru fjölmargir. Sem dæmi má nefna getur lyfið valdið bæði ofvirkni og vanvirkni á skjaldkirtli, breytingum í starsemi lifrar, trefjun á lungnavef, skýi á augasteini, húðbreytingum ásamt ýmsum öðrum.

Áður en meðferð hefst er gengið úr skugga um að lifur og skjaldkirtill virki eðlilega, þá er fylgst með starfsemi þeirra ca 2svar á ári, augum og lungum er fylgst með eftir þörfum. Þá er mikilvægt að sjúklingar sem taka lyfið passi sig á sólarljósi og forðist það að mestu ellegar noti sterka sólarvörn, annars er hætta á slæmum sólbruna.

Lyfið er gefið í töfluformi og tekur nokkrar vikur þar til þar nær nægilegri þéttni í líkama sjúklinga, því eru gefnar 3 töflur á dag í viku, síðan 2 töflur á dag í viku og vanalegi viðhaldsskammturinn eftir þann tíma er 1 tafla á dag.

Eftir að meðferð lýkur tekur það nokkra mánuði fyrir lyfið að hreinsast burt úr líkamanum og því mikilavægt að halda áfram að fylgjast með aukaverkunum lyfsins í allt að ár eftir að meðferð lýkur.

Kransæðasjúkdómur er algengur sjúkdómur hjá eldra fólki á Íslandi. Þó svo að kransæðasjúkdómur sem algengur í báðum kynjum, þá er hann mun algengari í karlmönnum og fá þeir sjúkdóminn yngri að árum. Um ¾ af öllum kransæðastíflum eru í karlmönnum og ¼ í konum. 

Kransæðasjúkdómur er ein algengasta dánarorsök hjá Íslendingum, og er  1/3 af öllum dauðsföllum hérlendis vegna hjarta- og æða sjúkdóma, en bráð kransæðastífla á þar stærstan þátt.

Á síðustu fjórum áratugum hefur dánartíðni fegna kransæðasjúkdóms lækkað hratt, eða um 80%. Það eru margir þættir sem skýra þessa fækkun, en þar ber helst að nefna minni reykingar, betra kólesteról og betri blóðþrýstingsmeðferð. Einnig hafa lyfjameðferðir orðið betri, sem og önnur meðferð eins og þræðingar við bráðri kransæðastíflu.

Hesltu áhættuþættir fyrir þróun kransæðasjúkdóms eru karlkyn, reykingar, hátt kólesteról, hár bóðþrýstingur og sykursýki. Saga um kransæðastíflu eða andláts vegna kransæðastíflu hjá nánum ættingja (foreldri eða systkini) fyrir 65 ára aldur er einnig sterkur áhættuþáttur.

Kransæðasjúkdómur er mjög algengur hjá eldra fólki, og lang flestir 80 ára og eldri eru komnir með merki um æðakölkunarsjúkdóm í kransæðunum. Þannig sest með tímanum kalk og kólesteról í æðavegginn sem getur þrengt æðina. Yfirleitt er þetta einkennalaust þar til þrengingin er orðin meiri en 70% af flatarmáli æðarholsins.

 

Kransæðasjúkdómi er skipt í tvo mismunandi sjúkdóma sem eiga ýmislegt sameiginlegt en annað ekki.

Kransæðaæðakölkunarsjúkdómur (stöðugur/stabíll kransæðasjúkdómur)

Þetta  ástand einkennist af hægfara æðakölkun sem eykst með tímanum. Þar sem sjúkdómurinn er afar hægfara er yfirleitt nægur tími til að setja inn lyfjameðferð og í völdum tilfellum gera kransæðamyndatökur og hugsanlega víkkanir. 

Horfur í þessum sjúkdómi eru góðar og dánartíðni lág. Einkenni sjúklings eru oftast verkir í brjósti (eða þyngsli) við áreynslu. Margir eru hins vegar einkennalausir.  Einkenni svara oft lyfjameðferð, sem er beitt í fyrstu og ef sjúklingar eru verulega einkennamiklir þrátt fyrir lyfjameðferð getur kransæðavíkkun eð opin kransæðaaðgerð komið að gagni.

Bráður kransæðasjúkdómur

Þetta er hins vegar sjúkdómur sem einkennist af bráðum einkennum (oft í hvíld). Oft er um að ræða rof á innra byrði æðaveggsins og getur það valdið bráðri lokun á kransæð. Þetta er lífshættulegt og brátt ástand sem þarf að meðhöndla strax og er sjúklingur alltaf fluttur beint á bráðamóttöku eða beint til kransæðaþræðingar. Stundum eru gefið segaleysandi lyf. Bráð kransæðastífla er algeng ástæða skyndidauða hjá fólki á miðjum aldri.

Ofansleglahraðtaktur (e. SVT, Supraventricular tachycardia) er hjartsláttartruflun sem lýsir sér sem skyndilegum mjög örum og reglulegum hjartslætti.

Um 1-2% af fólki er með SVT en einkennin geta verið mjög breytileg manna á milli. Sumir fá mjög fá köst, en aðrir tíð köst. Hjartsláttarhraðinn (púlsinn) getur líka verið mjög mismunandi, en algengast er að hann sé á bilinu 130-220 slög/mín. Á milli kastanna er hann hins vegar eðlilegur.

Það eru nokkrir mismunandi undirliggjandi sjúkdómar að baki SVT. Sumir geta byrjað í barnæsku (jafnvel í fósturlífi) meðan aðrir fá einkenni í fyrsta skipti jafnvel eftir 50 ára aldur.

Einkenni

SVT kast byrjar yfirleitt mjög skyndilega og stoppar einnig skyndilega, oft með þungu hjartaslagi. Einkennin eru yfirleitt vanlíðan vegna hraðs hjartsláttar en önnur einkenni geta verið andþyngsli, brjóstverkur og einstaka sinnum yfirlið. Sumir fá köst frekar í áreynslu en aðrir frekar í hvíld. Lengd kasta eru mjög mismunandi, allt frá nokkrum sekúndum upp í margar klukkustundir.

Þegar köstin koma gegnast sumum sjúklingum að rembast, draga andann djúpt, blása í sogrör eða drekka ískaldan vökva.

Ef ekkert hrífur þarf stundum að fara á bráðamóttöku til að fá lyf í æð til að stoppa kastið.

Rannsóknir

Ef þig grunar að þú gætir verið með SVT er rétt að fá tilvísun til hjartalæknis sem getur greint vandamálið, og útilokað undirliggjandi hjartavandamál.  Þá er yfirleitt fengið hjartalínurit og stundum 24-48 klst línurit (Holter rannsókn). Stundum eru til línurit frá bráðamóttöku af kasti og eru þau mjög gagnleg til að greina vandamálið. Hjá mörgum sjúklingum er hins vegar erfitt að fá línurit þar sem köstin eru fátíð og stutt. Þá þarf að styðjast við lýsingar sjúklings og greiningin byggist þá á líkum.

Horfur sjúkling með SVT eru afar góðar og vandmál fátíð, þó vissulega geti köstin háð sjúklingum verulega og skert lífsgæði þeirra.

Meðferðarúrræði

Meðferðin fer eftir alvarleika kastanna og óska sjúklingsins.

Það getur komið til greina að beita engri annari meðferð en eftirliti. Oft eru reynd lyf, sem sjúklingur getur tekið fast sem fyrirbyggjandi meðferð, eða bara í köstum.

Endanleg meðferð er brennsluaðgerð, sem er þræðingaraðgerð. Hún heppnast í yfir 90% sjúklinga með SVT. Stundum getur þurft að gera fleira en eitt inngrið til að ná fullum árangri. Fylgikvillar brennsluaðgerðar eru fátíðir.

Aukaslög er afar algeng hjartsláttartruflun og erum við öll með aukaslög í einhverjum mæli. Það getur verið alveg eðlilegt að vera með allt að nokkrum hundruðum aukaslaga á sólarhring. Aukaslög fer yfirleitt mikið fjölgandi með hækkandi aldri.
Einkenni
Aukaslög gefa yfirleitt einkenni þar sem fólki finnst eins og hjartað missir úr slagi og svo kemur þungt slag eða bank. Oftast finna menn fyrir því mest þegar þeir eru í slökun, og sérstaklega er þetta áberandi ef legið er á vinstri hlið. Það er oftast nær ekki gott samhengi milli einkenna og fjölda aukaslaga og geta þeir oft verið með lítil einkenni sem eru með mjög tíð aukaslög og öfugt. Dæmigert er að aukaslögin geta verið mjög áberandi á ákveðnu tímabili og geta svo verið mjög fátíð á öðrum tímabilum og einkenni eru því oft mjög sveiflukennd.
Orsök
Aukaslög geta komið annars vegar frá gáttum hjartans og hins vegar frá sleglum hjartans. Þegar aukaslög frá gáttum eru mjög tíð getur það verið vegna stækkunar á gáttum og/eða örvefsmyndunar í gáttunum. Stundum eru sjúklingar með gáttatif með afar tíð aukaslög frá gáttum. Hjá mörgum sjúklingum finnst hins vegar engin skýring.
Ef aukaslög koma frá sleglum hjartans er algengast að engin orsök finnist fyrir þeim. Hjá einstaka sjúklingi getum verið um undirliggjandi hjartasjúkdóm að ræða, sem getur skýrt þennan aukna fjölda, en það er fremur fátítt. Ef aukaslögin eru mjög tíð (<15% af öllum slögum) geta aukaslögin valdið truflun á samdrætti hjartans sem getur lýst sér sem hjartabilun, en það er mjög sjaldgæf orsök hjartabilunar.
Rannsóknir
Ef grunur er um einkennagefandi aukaslög er yfirleitt fengnar blóðrannsóknir, hjartalínurit (EKG) og sólarhringshjartarit. Ef aukaslög eru tíð, og einkenni samfara, er oft rétt að fá ómskoðun til að meta hvort merki séu um hjartastækkun, örvef eða hjartabilun. Hjá einstaka sjúklingum getur verið gagn af segulómun af hjarta til að meta betur hvort örvefur sé til staðar. Aukaslög tengjast ekki sérstaklega kransæðasjúkdómi, svo sjaldan er ástæða til að meta kransæðar þegar verið er að rannsaka aukaslög.
Meðferð
Ef aukaslög eru frá gáttum eða eru ekki mjög tíð er sjaldnast þörf á meðferð. Oft getur minni koffínneysla, minni áfengisnotkun, þyngdartap, aukin hreyfing og aðrar jákvæðar lífstílsbreytingar haft mikla gagnsemi.
Ef aukaslögin eru þrátt fyrir breyttan lífstíl mjög tíð og sér í lagi ef einkenni eru veruleg er stundum beitt lyfjameðferð. Þá eru oft notuð lyf eins og metoprolol, atenolol, bisoprolol, cardizem, verapamil eða flekainide.
Hjá einstaka sjúklingi með tíð aukaslög, þar sem lyfjameðferð gagnast ekki nægjanlega og einkenni eru veruleg, getur brennsluaðgerð gagnast. Árangur af brennsluaðgerð er um 70%, og fylgikvillar eru fátíðir.

Hjartsláttarhraði í fullorðnum er oftast í hvíld á milli 50-90 slög á mínútu. Mikill munur er hver hvíldar hjartsláttarhraði er milli einstaklinga. Það eru oft erfðaþættir og lyf sem skipta þar mestu máli. Einnig skiptir aldur máli, en það hægir á bæði hvíldarhjartslætti og hámarkshjartsláttarhraða þegar við eldumst. Þeir sem eru í mikilli þjálfun eru einnig með lágan hvíldar hjartsláttarhraða, stundum niður í 30-35 slög/mín. Hjartsláttarhraði er mældur með hjartalínuriti, en oft er einnig hægt að nota púlsmæli (t.d. mettunarmælir). Púlshraði og hjartsláttarhraði er ekki alltaf sá sami, sér í lagi geta aukaslög eða óreglulegur hjartsláttur valdið því að púlshraði skráist lægri en hjartsláttarhraðinn raunverulega er. Þannig getur t.d. einstaklingur sem er með mikið af aukaslögum fengið 35 slög/min á púlsmæli þegar hjartsláttarhraðinn er í raun 70 slög á mínútu. 

Þegar við sofum fer hjartslátturinn niður og getur auðveldlega farið niður í 30 slög/mín á köflum hjá alveg heilbrigðum einstaklingum.

Til að rannsaka hægan hjartslátt er yfirleitt gert sólarhrings hjartalínuriti (Holter) í 1-2 sólarhringa.

Oftast er ekki nauðsynlegt að meðhöndla hægan hjartslátt. Ef einkenni eru veruleg, t.a.m. mikil þreyta, yfirlið eða hjartabilun getur verið gagn af meðferð, eða ef talin er veruleg hætta á alvarlegum hægtakti.

Meðferðin er þá yfirleitt að stöðva lyf sem hægja á hjartslætti, eða að græða í sjúklinginn gangráð.

Hjartavöðvakvillar (e. cardiomyopathies) er samheiti yfir sjúkdóma í hjartavöðva sem geta valdið þykknun, víkkun eða auknum stífleika. Þessir sjúkdómar hafa áhrif á getu hjartans til að geta dælt blóði um líkamann. Hjartavöðvakvillar orsakast ekki af kransæðasjúkdómi eða hjartalokusjúkdómi.

Oft er um arfgenga sjúkdóma að ræða og koma þá gjarnan fram í börnum eða ungum einstaklingum. Einnig getur hjartavöðvakvilli verið afleiðing af veirusýkingu eða útfellingum í hjartavöðva. Langvarandi háþrýstingur getur valdið hjartavöðvakvilla. Stundum finnst engin sérstök skýring á sjúkdómnum.

Hjartavöðvakvillar geta verið alveg einkennalausir og uppgötvast þá oft fyrir tilviljun, vegna brenglunar í línuriti eða í blóðrannsókn.

Þegar einkenni eru til staðar eru það oftast einkenni sem tengjast hjartabilun (sjá kafla um hjartabilun). Önnur einkenni geta verið hjartsláttartruflanir, bæði hraður hjartsláttur og óreglulegur. 

Sjúklingar með hjartavöðvakvilla þurfa að jafnaði að vera undir eftirliti hjartasérfræðinga með sérþekkingu í meðhöndlun sjúkdómsins.

Algengustu tegundir hjartavöðvakvilla eru:

  • Ofvaxtarhjartavöðvakvilli. Við þennan hjartavöðvakvilla þykknar hjartavöðvinn óeðlileg mikið og oft verður einnig aukin bandvefsmyndun í vöðvanum. Oftast er um arfgenga stökkbreytingu að ræða sem veldur sjúkdómnum og leggst hann þá á fjölskyldur, þar sem barn einstaklings með kvillan hefur um helmings líkur á að erfa gallaða genið. Þykknunin og bandvefmyndunin veldur auknum stífleika í hjartanu sem gerir að verkum að dælugeta hjartans minnkar. Oft er aukin hætta á alvarlegum hjartsláttartruflunum. Meðferðin er yfirleitt lyfjameðferð og í völdum tilfelllum eru græddir í sjúklinga bjargráðar.
  •  Hjartavöðvakvilli sem veldur víkkun á hjartanu. Þessi kvilli er algengastur af hjartavöðvakvillunum. Stundum er ástandið einkennalaust, en yfirleitt eru einkenni hjartabilunar (bjúgur, mæði, þreyta og orkuleysi). Hér eru líka stundum erfðasjúkdómar, þar sem stökkbreytt gen valda ættgengu formi af sjúkdómnum. Hjá flestum finnst hins vegar engin skýring. Meðferðin er lyfjameðferð, sem er ævilöng. Flestir þessara sjúklinga þurfa að vera á nokkrum ólíkum lyfjum til að meðhöndla sjúkdóminn. Lyfjameðferðin hefur gjörbreytt lífi sjúklinga með þennan sjúkdóm og horfurnar hafa batnað verulega síðustu 10-20 árin.  Hjá einstaka sjúklingi kemur til greina að setja bjargráð eða hjartabilunargangráð. Einstaka yngri einstaklingar þurfa hjartaskipti ef lyfjameðferðin dugar ekki til að halda aftur af einkennum. 
  • Hæ slegils hjartavöðvakvilli (ARVC):. ARVC er ensk skammstöfun sem stendur fyrir (Arrhthmogenic Right Ventricular Cardiomyopathy). Þessi sjúkdómur er nánast alltaf arfgengur og eru þekkt 2 gen á Íslandi sem valda sjúkdómnum. Ekki fá allir sem eru með genið sjúkdóminn og það er ekki alveg vitað hvers vegna það er.  Mikil áreynsla (eins og þol íþróttir) hafa verið bendlaðar við aukna hættu á sjúkdómnum. Sjúkdómurinn leggst oftast á hægri slegil hjartans (en getur líka lagst á vinstri slegil). Það sjást þá dæmigerðar breytingar á hjartalínuriti og segulómun af hjarta. Oft er hægri slegillinn víkkaður og með skertum samdrætti. Það sem einkennir þennan sjúkdóm er aukin tíðni af takttruflunum sem eiga upptök sín  í hægri slegli. Stundum geta þessar truflanir verið lífshættulegar, en svara oft vel meðferð. Hjá einstaka sjúklini getur komið til álita að setja bjargráð. Sjúklingar með ARVC eiga að forðast mikla líkamlega áreynslu (þríþraut, langar hjólreiðar, maraþon ofl) en geta stundað venjulega líkamsrækt. 

Hjartavöðvabólga orskakast oftast af öndunarfæraveirum, þeim sömu sem valda kvefi, öðrum öndunarfærasýkingum og niðurgangi og kemur þá stundum í kjölfar slíkra veikinda. Auk þess geta lyf, bóluefni og ýmsir bólgusjúkdómar valdið bólgu í hjartavöðva.

Einkenni hjartavöðvabólgu eru oftast brjóstverkur sem versnar oft við innöndun ef samfara er einnig gollurshúsbólga (gollurshús umlykur hjartað), hiti, þreyta, mæði, hjartsláttartruflanir o.fl.

Greining fer fram með hjartalínuriti, blóðprufum og hjartaómskoðun, stundum er einnig stuðst við segulómun af hjarta.

Meðferðin felst yfirleitt í hvíld, verkjastillingu með bólgueyðandi lyfjum, t.d. Ibufen og skyldum lyfjum. Sjaldan eru sterar eða aðrar sérhæfðari meðferðir notaðar. Í sjaldgæfum tilfellum veldur bólgan mikilli skerðingu á starfsemi hjartan sem leitt getur til hjartabilunar og lífshættulegra veikindaog er meðferðin þá sérhæfðari, sjá kafla um hjartabilun.

Mikilvægt er að taka því rólega og forðast áreynslu meðan á veikindum stendur og forðast æfingar í 3-6 mánuði eftir, allt eftir alvarleika veikindanna.

Við kæfisvefn verða endurtekin öndunarhlé í svefni sem geta valdið súrefnisskorti á meðan einstaklingurinn sefur. Algeng einkenni eru miklar hrotur, öndunarhlé, vakna með þurran munn, morgunhöfuðverkur, dagsyfja, eirðarleysi, pirringur og svefnerfiðleikar.

Áhættuþættir eru offita, þykkur háls, stórir hálskirtlar, reykingar og sumir sjúkdómar eins og sykursýki, lungnasjúkdómar, hjartabilun og Parkinsons sjúkdómur

Algengir fylgikvillar kæfisvefns eru 

  • Dagsyfja sem getur valdið því að fólk sofnar undir stýri eða við vinnu.
  • Erfiður blóðþrýstingur
  • Sykursýki
  • Gáttatif

Ef grunur er um kæfisvefn er gerð s.k. kæfisvefnsrannsókn hjá lungnalæknum, til að greina hvort kæfisvefn er til staðar og hverrar gerðar kæfisvefninn er.

Ef um marktækan kæfisvefn er að ræða er yfirleitt meðhöndlunin kæfisvefnsvél, sem blæs lofti í nef sjúklings meðan hann sefur til að viðhalda opnum öndunarvegi.

Einstaka sinnum er mælt með bitgóm, eða aðgerð á koki.

Horfur sjúklinga með hjartabilun hefur batnað umtalsvert síðustu áratugi með tilkomu nýrra lyfja. Hjartabilun er ástand þar sem hjartað er ekki að uppfylla þarfir líkamans með eðlilegri starfsemi. Helstu einkenni hjartabilunar eru mæði, bjúgsöfnun (oft í lungum eða á ganglimum), þreyta, orkuleysi, brjóstverkir o.fl. Hjartabilun getur ýmist verið vegna truflunar í samdrætti hjartans (systolisk hjartabilun) eða í slökun hjartans (diastolisk hjartabilun).

Helstu orsakir hjartabilunar eru háþrýstingur, kransæðasjúkdómur, sykursýki, takttruflanir, lokusjúkdómar, lyf, sýkingar og áfengi.

Hjartabilun er greind með viðtali og skoðun sjúklings, hvort hafi sjúklingur merki um eða einkenni hjartabilunar og einnig með myndrannsókn af hjarta, oftast ómskoðun eða blóðprufum.

Fjölmörg lyf eru notuð við meðferð hjartabilunar og er ekki óalgengt að meðferðin samanstandi af minnst 5 lyfjum.

-ACEi (angiotensin converting enzyme inhibitor) eða ARB (angiotensin receptor blocker). Dæmi um slík lyf eru Enalapril (Daren), Ramipril (Ramil), Valsartan, Losartan (Losatrix, Cozaar, Presmin) ásamt mörgum fleirum. Þessi lyf eru einnig notuð sem meðferð við háþrýstingi.

-Betablokkerar. Dæmi um slík lyf sem gagnast í hjartabilun eru Metoprolol (Seloken, Bloxazoc), Bisoprolol (Bisbetol) og Carvedilol (Carveratio). Þessi lyf eru einnig notuð við ýmsum hjartsláttartruflunum. Þau hægja á hjartsláttarhraða og minnka súrefnisþörf hjartans.

-Aldosterone hemlar. Dæmi um slík lyf eru Spironolactone (Spirix, Spiron) og Eplerenone. Þau hafa þvagræsandi áhrif.

-Nýjustu lyfin sem sýnt hafa árangur í meðferð hjartabilunar voru upphaflega eingöngu notuð til meðferðar á sykursýki en hafa sýnt góðan árangur við meðferð á hjartabilun, sérstaklega þar sem um skertan samdráttarkraft er að ræða. Dæmi um slík lyf eru Forxiga og Jardiance.

-Þvagræsilyf. Sumir þurfa stöðugt að taka þvagræsilyf en aðrir nota þau efir þörfum. Algengasta þvagræsilyfið er Furosemide (Furix). Þar sem þetta lyf veldur oft skorti á kalium í blóði þarf oftast að taka samfara því Kaleorid töflur sem innihalda Kalium salt.

Hjá vissum sjúklingum með alvarlega hjartabilun kemur til greina að græða í sjúklinga hjartabilunargangráð og/eða bjargráð.

Önnur mikilvæg atriði við meðferð hjartabilunar eru að sjúklingar hugi að heilbrigðum lífsstíl, hugi að mataræði og hreyfingu, forðist áfengisneyslu og saltríkan mat. Fylgjast þarf með daglegri vikt, á sérstaklega við um sjúklinga með alvarlega og einkennamikla hjartabilun. En þyngdaraukning um 2 kg eða meira á innan við þremur sólarhringum getur bent til aukinnar bjúgmyndunar. Þá er sjúklingum oft ráðlagt að auka tímabundið inntöku þvagræsilyfja eða hafa samband við sinn lækni.

Oftast er hjartabilun langvinnt ástand þar sem markmið meðferðar er að bæta einkenni og lengja lifun sjúklinga. Hjartabilun getur þó í vissum tilvikum gengið að mestu leyti til baka. Þetta á t.d. við um sjúklinga sem fengið hafa hjartavöðvabólgu, hjartsláttartruflanir sem læknaðar eru með lyfjum eða brennsluaðgerð, áfengisneysla o.fl.

Hjarta okkar hefur fjórar hjartalokur. Það eru tvær hjartalokur í hvorum hluta hjartans (tvær hægra megin og tvær vinstra megin). Hjartalokur okkar eru einstreymislokur sem eiga að hleypa blóðinu greiðlega í gegn, en hindra bakflæði á blóði í öfuga átt til að viðhalda eðlilegu blóðflæði um og frá hjartanu. Algengt er að lokur leki aðeins og er það algjörlega eðlilegt að vera með vægan leka. Ef lekinn er mikill getur það valdið skertri dælugetu og bjúg í lungum. Eins geta lokur verið óeðlilega þröngar og getur það valdið tregðu í flæði um þær og veldur það einnig hjartabilunareinkennum.

Ef lokusjúkdómur er svæsinn er oft gerð aðgerð til að laga lokuna eða skipta henni alveg út. Þá er oft sett loka úr málmi/plasti eða úr kálfi/svíni. Ef sett er loka úr málmi/plasti er þörf á ævilangri blóðþynningu með Warfaríni.

Lokusjúkdómar greinast stundum við hlustun en mat er lagt á þá með ómskoðun af hjarta. Oft þarf að endurtaka rannsóknina með jöfnu millibili um margra ára skeið, þar til ákvörðun er tekin um aðgerð.

 

Hjartalokusjúkdómar geta verið meðfæddir eða áunnir, og eru áunnir lokusjúkdómar algengastir. 

Lokusjúkdómar í lokum vinstra megin:

Míturloka: 

Míturloka er tveggja blöðku loka milli vinstri gáttar og vinstri slegils. Leki í þessari loku eru nokkuð algengir hjá sjúklingum með aðra undirliggjandi hjartasjúkdóma (hjartabilun og kransæðasjúkdóm). Meðferðin er yfirleitt lyfjameðferð, nema um stóran leka sé að ræða, þar sem lokan er gölluð. Þá er oft hægt að gera við lokuna í opinni aðgerð (lokusparandi aðgerð) eða skipta henni alveg út með gerviloku. Þrengsli í míturloku eru sjaldgæf, en sjást stundum eftir gigtsótt eða við verulega kölkun í lokunni. Oftast þarf að skipta um loku ef sjúkdómurinn er alvarlegur. Gáttatif er afar algengt hjá sjúklingum með sjúkdóma í míturloku.

Ósæðaloka:

Ósæðarlokuþrengsli er algengasti lokusjúkdómurinn sem þarfnast aðgerðar. Oft er lokan verulega kölkuð, og er þá skipt um loku. Hægt er að skipta um loku í opinni aðgerð eða með þræðingartækni (s.k. TAVI aðgerð). Flestir sjúklingar með ósæðalokuþrengsli eru eldri (>70 ára). Oft greinist ósæðalokusjúkdómur þegar hjartaóhljóð heyrist við hlustun. Yfirleitt er beðið með aðgerð meðan þrengslin eru væg eða meðalsvæsin og getur það tekið mörg ár þar til skipta þarf um loku. Ósæðalokuleki er mun sjaldgæfari, og greinist oftar hjá yngri einstaklingum og sést þá oft mikil víkkun á ósæðarótinni.. Hér er stundum hægt að gera lokusparandi aðgerð, en oft þarf að skipta bæði um loku og/eða ósæðarótina þegar lekinn er orðinn mikill eða mikil víkkun sést á ósæðarót.

 

Lokusjúkdómar í lokum hægra megin:

Þríblöðkuloka: 

Þríðblöðkuloka liggur á milli hægri gáttar og hægri slegils. Hjá heilbrigðum er oft lítill leki sem skiptir engu máli fyrir eðlilega starfsemi hjartans. Hins vegar ef lekinn er mikill, fylgið því oft hjartabilunareinkenni með bjúg á fótum og meltingarvegi. Það er sjaldan gerð aðgerð eingöngu við þríblöðkulokuleka. Yfirleitt er þessi leki meðhöndlaður með hjartabilunarlyfjum.

Lungnaslagæðaloka: 

Lungnaslagæðaloka liggur milli hægri slegils og lungnaslagæðar. Það geta bæði verið stórir lekar og þrengsli í þessari loku, en þessir sjúkdómar tengjast yfirleitt meðfæddum hjartagöllun og er meðferðin því tengd meðferð þessara hjartagalla. Sjúkdómar í lungnaslagæðaloku eru annars sjaldgæfir hjá þeim sem hafa ekki slíka meðfædda hjartagalla. 

3.Lyfjameðferðir:

Cordarone er án efa öflugasta lyfið sem notað er við hjartsláttartruflunum. Lyfið er aðallega notað við gáttatifi þegar önnur meðferð hefur ekki skilað árangri eða frábending finnst. Það er þó einnig notað við ýmsum öðrum hjartsláttartruflnum þá einkum takttruflunum í sleglum. Lyfið hefur aðallega áhrif á kaliumgöng í hjartanu og lengir leiðnitíma rafboða.

Mikilvægt er að áður en meðferð hefst að upplýsa sjúklinga um mögulega fylgikvilla en þeir eru fjölmargir. Sem dæmi má nefna getur lyfið valdið bæði ofvirkni og vanvirkni á skjaldkirtli, breytingum í starsemi lifrar, trefjun á lungnavef, skýi á augasteini, húðbreytingum ásamt ýmsum öðrum.

Áður en meðferð hefst er gengið úr skugga um að lifur og skjaldkirtill virki eðlilega, þá er fylgst með starfsemi þeirra ca 2svar á ári, augum og lungum er fylgst með eftir þörfum. Þá er mikilvægt að sjúklingar sem taka lyfið passi sig á sólarljósi og forðist það að mestu ellegar noti sterka sólarvörn, annars er hætta á slæmum sólbruna.

Lyfið er gefið í töfluformi og tekur nokkrar vikur þar til þar nær nægilegri þéttni í líkama sjúklinga, því eru gefnar 3 töflur á dag í viku, síðan 2 töflur á dag í viku og vanalegi viðhaldsskammturinn eftir þann tíma er 1 tafla á dag.

Eftir að meðferð lýkur tekur það nokkra mánuði fyrir lyfið að hreinsast burt úr líkamanum og því mikilavægt að halda áfram að fylgjast með aukaverkunum lyfsins í allt að ár eftir að meðferð lýkur.

Tambocor er notað við ýmsum hjartsláttartruflunum en þó aðallega við meðferð gáttatifs. Notkun lyfsins við gáttatifi hefur reynst nokkuð árangursrík en auk þess er Tambocor notað við öðrum takttruflunum í gáttum og í sleglum. Meðferð og eftirfylgd sjúkllinga á Tambocor skal vera í höndum hjartalækna.

Ávallt þarf að meðhöndla sjúklinga samtímis með betablokkerum (metoprolol, bisoprolol, atenolol) eða kalsiumgangalokum (verapamil, diltiazem).

Sjúklinga með kransæðasjúkdóm, hjartabilun og ákveðnar tegundir leiðnitruflana í hjartanu má ekki meðhöndla með Tambocor.

Áður en meðferð hefst þarf að útiloka þessa sjúkdóma og taka hjartalínurit. Byrjað er yfirleitt með skammt sem er 50mg tvisvar á dag en hækka má skammtinn í að hámarki 200mg 2svar á dag. Eftir að meðferð hefst svo og þegar skammtur er aukinn þarf að meta hjartalínurit ca 3 dögum síðar. Fylgst er með sjúklingum 2svar á ári og tekin afstaða til áframhaldandi meðferðar. Ef sjúklingur helst ekki í takti á lyfinu skal stöðva notkun þess.

Algengustu aukaverkanir Tamcocor eru sjóntruflanir, svimi, hjartsláttartruflanir, mæði, þreyta og bjúgur.

Statín er flokkur lyfja sem hamla myndun á kólesteróli, og valda því kröftugri lækkun á magni kólesteróls í blóði. Algengustu statín lyfin sem eru notuð á Íslandi eru atorvastatin (Atacor, Lipistad), simvastatin og rosuvastatin (Crestor). Lyfin lækka öll s.k.  LDL-kólesteról sem tengist myndun á kólesterólskellum í æðum og minnka þannig  myndun á slíkum skellum í kransæðunum. Þessar skellur eru orsök kransæðastífla og heilablóðfalls hjá flestum sjúklingum. Hjá sjúklingum sem hafa fengið kransæðastíflu eða heilablóðfall er sterk ábending fyrir þessum lyfjum, en þeim er stundum einnig beitt sem fyrirbyggjandi meðferð hjá sjúklingum sem eru taldir vera í mikilli áhættu fyrir kransæðasjúkdómi. Statínlyf eru meðal mestu framfara í meðferð á kransæðasjúkdómi.

Statín lyf eru meðal mest notuðu lyfja á Íslandi og orsökin fyrir því er góð virkni og litlar aukaverkanir. Hjá sjúklingum sem hafa fengið hjartaáfall minnka lyfin áhættu á nýrri stíflu um fjórðung. Flest önnur lyf sem eru notuð hjá þessum sjúklingahópi hafa ekki álíka  áhrif. Einnig auka statín lifun sjúklinga með kransæðasjúkdóm.

Af aukaverkunum statína er vöðvaverkur lang algengastur. Þar sem vöðvaverkir eru mjög algeng kvörtun (hjá bæði sjúklingum á statínum og án þeirra) getur verið erfitt að gera sér grein fyrir tengslunum. Stundum nægir að breyta um statín eða aðlaga skammta. Stundum getur nokkurra vikna hlé verið gagnlegt til að gera sér grein fyrir tengslum milli einkenna og lyfsins.

Aðrar sjaldgæfar aukaverkanir eru vöðvaniðurbrot, aukaverkun á lifur, aukin áhætta á sykursýki og minnistruflanir.

Þó að statín geti vissulega í sjaldgæfum tilvikun valdið alvarlegum aukaverkunum, þá er áhættan afar lítil og gagnsemi lyfjana yfirgnæfir þessar hliðarverkanir.

Hægt er að fylgjast með hvort aukaverkanir séu til staðar og eins hvort lyfin séu að hafa æskileg áhrif. Það er gert með einfaldri blóðprufu.

Þeir fáu einstaklingar sem hafa góða ábendingu fyrir statínum, en geta ekki þolað þau, geta stundum notað lyf af nýjum flokki sem nefnast PCSK9 hemlar. Þau eru gefin sem stungulyf, og hafa gefið góða raun, en eru afar dýr. Tvö slík lyf hafa fengið markaðsleyfi á Íslandi, Praluent og Repatha.

Hjá sjúklingum með gáttatif getur verið aukin hætta á blóðtappamyndun. Myndun blóðtappa á sér stað í gáttum hjartans þar sem samdráttur gáttanna er afar lítill meðan á gáttatifi stendur. Þessir tappar geta síðan átt greiða leið til heilans og valdið heilablóðfalli. Óalgengara er að tapparnir lendi í öðrum líffærum svo sem kransæðum hjartans, nýrum eða útlimum en slíkt er þó þekkt.

 

Til að fyrirbyggja blóðtappamyndun eru notuð blóðþynnandi lyf. Þessi lyf draga verulega úr hættunni á blóðtappamyndun og þar með á heilablóðfalli. Ekki þurfa þó allir að notast við slík lyf en undirliggjandi áhættuþættir stjórna því hvaða sjúklingar þurfa á þeim að halda. Dæmi um þessa áhættuþætti eru hár blóðþrýstingur (líka sjúklingar á meðferð við of háum blóðþrýstingi), sykursýki, æðakölkunarsjúkdómar, hjartabilun, aldur yfir 65 ár o.fl. Ekki nægir ávallt að hafa einn áhættuþátt en ef tveir eða fleiri þá er nær undantekningarlaust mælt með blóðþynningu. Sjúklingar sem eru án allra áhættuþátta gætu þó tímabundið þurft að taka blóðþynningu í sambandi við rafvendingu eða brennsluaðgerð.

 

Áður fyrr var hjartamagnyl notað í þessum tilgangi en rannsóknir seinni ára hafa sýnt að það dregur ekki úr hættu á heilablóðfalli af völdum gáttatifs. Hjartamagnyl og önnur áþekk lyf gegna hins vegar enn mikilvægu hlutverki við meðhöndlun kransæðasjúkdóms og ýmissa annarra æðasjúkdóma.

 

Þau lyf sem notuð eru í dag eru Warfarin, Pradaxa, Eliquis, Xarelto og Lixiana. Warfarin er elsta lyfið og er mesta reynslan af notkun þess. Meðferðin með því er hins vegar flóknari þar sem ýmis lyf og matvæli geta haft áhrif á styrk þess í blóði auk þess sem þarf að mæla reglulega virkni þess með blóðprufu og ákveða skammtastærðir. Sumir sjúklingar með gáttatif geta þó einungis notast við Warfarin, t.d. sjúklingar sem einnig hafa ígræddar stállokur í hjartanu.

 

Nýrri lyfin eru einfaldari í notkun og eru gefin í ákveðnum skammti einu sinni til tvisvar á dag. Skammtastærðir fara eftir m.a. aldri, nýrnastarfsemi og notkun annarra lyfja. Ekki er þörf á að fylgjast með styrk þeirra í blóði en hins vegar mikilvægt að fylgjast með starfsemi lifrar og nýrna einu sinni til tvisvar á ári auk magns blóðrauða.

 

Helstu fylgikvillar allra þessara lyfja eru auknar blæðingar og þá aðallega frá meltingar- og þvagfærum. Því er mikilvægt að sjúklingar láti sinn lækni vita ef þeir verða varir við blóð í hægðum eða svartar hægðir (svartar hægðir eru merki um blæðingu ofarlega í meltingarvegi), eins ef vart verður við blóð í þvagi eða aðrar blæðingar.

 

Þurfi sjúklingur á blóðynningu að undirgangast aðgerð þarf oftast að stöðva blóðþynninguna tímabundið í 1-2 sólahringa fyrir aðgerð. Það fer þó eftir tegund aðgerðar og starfsemi nýrna. Mikilvægt er því að upplýsa ávallt um töku slíkra lyfja. Warfarin þarf þó að stöðva með lengri fyrirvara.

Saxenda er lyf sem upphaflega var þróað sem meðferð við sykursýki og notað við meðferð á sykursýki. Í prófunum kom í ljós að það stuðlaði að verulegu þyngdartapi og var það talið vera vegna verkunar á heilann. Lyfið veldur seddutilfinningu og stuðlar að því að sjúklingar borða færri hitaeiningar og léttast þar af leiðandi.

Lyfið er sprautulyf og þarf að nota einu sinni á dag.

Lyfið er dýrt og þarf að fá samþykki Sjúkratrygginga Íslands fyrir meðferðinni áður en hún er hafin og er það háð ströngum skilyrðum. Hér má kynna sér skilmála fyrir útgáfu lyfjaskírteinis á heimasíðu SÍ.

Lyfið er fremst ætlað fólki með verulega offitu og sjúkdómum tengdum offitu, þar sem önnur meðferð eins og megrun og ráðgjöf næringafræðings hefur ekki skilað árangri. Á meðan lyfið er notað er mælt með að sjúklingar séu í eftirliti hjá heimilislækni og er lyfið oftast notað í 6 mánuði til 1 ár. Ef það gagnast ekki, er meðferðinni hætt. Mikilvægt er að það eigi sér stað varanlegar lífstíls breytingar á meðan meðferðinni stendur til að viðhalda þyngdartapi.

2.Meðferðir og rannsóknir:

Við bráðri kransæðastíflu er beitt kransæðaþræðingu og -víkkun og getur slík meðferð bjargað lífi sjúklinga. Mikilvægt er að ekki verði töf á greiningu í þessum tilvikum og þessari meðferð beitt fljótt.

Kransæðaþræðing er einnig gerð hjá sjúklingum til greiningar og meðferðar. Ýmist þar sem grunur er um þrengingar í kransæðum eða hjá sjúklingum með þekktan kransæðasjúkdóm sem svarar ekki lyfjaðmeðferð. Þræðingin er oftast gerð um slagæð í úlnlið sjúklings og leggur færður upp í ósæðarrótina þar sem upptök kransæða liggja. Þetta er yfirleitt ekki sársaukafullt nema rétt sjálf stungan, deyft er áður. Í vissum tilvikum er þó þrætt í gegnum slagæð í nára. Með þessum legg er hægt að sprautað skuggaefni í kransæðar og athugað hvort til staðar séu þrengingar sem þarfnast meðferðar. Meðferðin felst þá í að þræða örþunnan vír í æðarnar sem á er belgur og stoðnet. Belgurinn er blásinn upp og eftir situr stoðnet sem heldur æðinni opinni/víðri. Ef sjúkdómurinn er mjög dreifður í mörgum æðum eða hentar ekki til víkkunar með þræðingartækni er sjúklingi vísað til skurðaðgerðar.

Ávallt þarf sjúklingur að taka 2 lyf sem hemja blóðflögur eftir víkkun á kransæðum í a.m.k. 6 mánuði, stundum lengur.

Áreynslupróf er framkvæmt með því að sjúklingur er ýmist látinn hjóla á þrekhjóli eða ganga/hlaupa á hlaupabretti. Beitt er stigvaxandi álagi þar til sjúklingur hefur náð ca 90% af áætluðum hámarkshjartsláttarhraða. Prófið er stöðvað fyrr ef óeðlilegar breytingar eða einkenni koma fram. Fylgst er með hjartalínuriti, púls og blóðþrýstingi á meðan.

Helsta notkun áreynsluprófs er til að greina blóððþurrð í hjarta sem kemur fram við þrengingar í kransæðum. Við áreynslu hjá sjúklingum með alvarlegar þrengingar í kransæðum koma fram ákveðnar breytingar á hjartalínuriti ásamt því að sjúklingar fá oft dæmigerð einkenni. Hjartalæknir sem er viðstaddur áreynsluprófið metur síðan hvað eigi að gera. Við eðlilegt próf kemur til greina að aðhafast ekkert frekar eða beita frekari rannsóknum til greiningar þar sem eðlilegt áreynslupróf útilokar ekki að fullu kransæðasjúkdóm. Við óeðlilegt próf kemur til greina lyfjameðferð eða hjartaþræðing.

Áreynslupróf eru ekki eingöngu notuð til greiningar á kransæðasjúkdómi. Þau eru einnig notuð til að meta áhrif lyfjameðferðar við kransæðajúkdómi, svo og við greiningu og eftirfylgd ýmissa takttruflana.

Ómskoðun af hjarta er ein algengasta rannsókn sem hjartalæknar framkvæma. Ómun byggir á notkun hljóðbylgja sem sendar eru inn í líkamann og aftur til baka og unnin úr þeim lifandi mynd. Ómskoðun af hjarta er ekki sársaukafull rannsókn og ekki er nauðsynlegt að vera fastandi fyrir hana. Rannsóknin tekur oftast um 15 mínútur en síðan tekur lengri tíma að fara yfir hana og gera viðhlítandi mælingar og túlkun.

Þær upplýsingar sem fást úr hjartaómskoðun eru: stærð hjartahólfanna, þykkt hjartavöðva, útfallsbrot (hve miklu blóði hjartað dælir í hverju slagi), útlit og starfsemi hjartaloka, stærð hluta ósæðar, hvort óeðlilega mikill vökvi finnist í gollurshúsinu ásamt ýmsum öðrum göllum sem finnast í hjartanu.

Ómskoðun getur ekki metið ástand kransæða nema óbeint. Til dæmis ef örsvæði finnast við skoðunina getur það bent á eldri lokun eða þrengingu í kransæð sem skilið hefur eftir sig ör. Þá getur álagsómun veitt nokkra innsýn í ástand kransæða.

Stundum þarf að beita öðrum rannsóknum til að svara þeim spurningum sem ómskoðunin hefur vakið eða ekki náð að svara. Hjartaómun um vélinda þarf stundum til að meta betur ástand hjartaloka eða ef grunur er um gat milli hjartahólfa. Þá er einnig vélindaómun nauðsynleg til að meta sýkingar á hjartalokum og eins hvort blóðtappar leynist í gáttum hjartans.

Holter er tæki sem tekur upp hjartslátt sjúklinga. Tækið samanstendur af leiðslum sem tengdar eru á brjóst sjúklings og upptökutæki sem er fyrirferðarlítið. Vanalega bera sjúklingar Holter í 24 til 48 klukkustundir en stöku sinnum er þörf á fyrir lengri skráningu, allt að viku, þegar syttri mælingar hafa ekki gefið fullnægjandi svör.

Tilgangurinn með Holter mælingu er að finna takttruflanir hjá sjúklingum sem hafa einkenni um slíkt og þær hafa ekki náðst á hefðbundið hjartalínurit eða grunur er um takttruflanir, greina ástæðu yfirliða, fylgjast með áhrifum lyfjameðferðar o.fl.

Tölvusneiðmynd af kransæðum verður sífellt algengari og mikilvægari rannsókn við greiningu kransæðasjúkdóma. Myndatakan er gerð með röntgentækni í svokölluðu tölvusneiðmyndatæki. Við rannsóknina er hægt að fá góða mynda af útliti hjartans og kransæðunum. Myndatakan er sérstaklega gagnleg hjá yngra fólki þar sem lítið er um kalk í æðum sem geta truflað gæði myndanna og þá til að útiloka að kransæðasjúkdóm. Með rannsókninni fást upplýsingar um kalkmagn í kransæðum sjúklinga og hægt að bera saman við meðaltal jafnaldra og þannig spá fyrir um líkur á alvarlegum kransæðasjúkdómi, þá sjást einnig þrengingar ef þær eru byrjaðar að myndast. Yfirleitt þurfa þrengingar að vera a.m.k. ca 70% af þvermáli æðar til að teljast marktækar og veita einkenni.

 

Gróflega má segja að þrennt geti komið út úr myndatöku:

  1. Allar æðar eðlilegar og engar kalkanir.
  2. Kalkanir og vægar eða meðalmiklar þregningar. Það er þá mat og ákvörðun hjartalæknis hvernig skal meðhöndla, t.d. með statinlyfjum, hjartamagnyli ásamt fleiri lyfjum.
  3. Marktækar þrengingar á æðum, þá er einnig mat hjartalæknis sem ræður hvaða lyfjameðferð er beitt og hvort ástæða er til að senda sjúkling í kransæðaþræðingu.

Engan sérstakan undirrbúning þarf fyrir myndatökuna en ef púls er of hár eru oft gefin lyf til að hægja á hjartslættinum. Komið er fyrir æðalegg í handlegg sjúklings til gjafar á skuggaefni og því mikilvægt að fólk taki fram hvort um ofnæmi sé að ræða fyrirfram. Sjúklingar sem taka Metfomin (Glucophage) skulu ráðfæra sig við sinn lækni áður en rannsókn er framkvæmd.

Ofansleglahraðtaktur (e. supraventricular tachycardia, SVT) hrjáir um 1% Íslendinga. Stundum eru einkenni mjög væg og þá þarf oftast engin meðferð, enda er sjúkdómurinn oftast nær ekki hættulegur sjúklingnum. Þegar einkenni trufla daglegt líf sjúklings eru tvær meðferðir sem standa til boða. Lyfjameðferð er oft beitt í upphafi. Lyf geta stundum haldið aftur af einkennum, en oftast þarf að taka lyf á hverjum degi. Aukaverkanir af lyfjum eru nokkuð algengar, en oftast vægar. Algeng lyf sem eru notuð eru metoprolol (Seloken, Bloxazoc), atenolol, propranolol (Pranólól), verapamil (Isoptin), diltiazem (Cardil, Dilmin) og Tambocor.

Margir sjúklingar sem hafa talsverð einkenni af takttruflunum kjósa brennsluaðgerð. Ástæður geta verið margar, t.d. hjá mörgum sjúklingum virka lyfin ekki nægilega vel, aukaverkanir af lyfjunum og margir sjúklingar vilja einfaldlega ekki lyf. Einnig er brennsluaðgerð eina varanlega lækningin við flestum tegundum SVT og áhættan af meðferðinni er afar lítil.

 

SVT brennsla fer fram á hjartaþræðingarstofu. Sjúklingar eru oftast vakandi. Börn og ungmenni eru oft meðhöndluð í svæfingu. Byrjað er á að staðdeyfa í nára, og svo er leggjum komið fyrir í nára og þeir þræddir upp til hjartans. Oftast eru notaðir tveir leggir til greiningar og einn leggur til brennslu eða frystingu. Eftir að leggjum hefur verið komið fyrir eru gerðar mælingar á rafleiðni og síðan er reynt að örva fram hraðsláttartruflun sjúklings. Eftir að greining á tegund truflunar hefur verið gerð, er byrjað að meðhöndla. Oftast er beitt hitun (brennslu) en við vissar aðstæður getur læknir valið að skipta yfir í frystingu. Eftir hverja meðferð er athugað hvort truflunin er enn til staðar og algengt er að bíða í 20 mínútur eftir að meðferðin hefur farið fram. 

Eftir aðgerð eru leggirnir fjarlægðir og settar umbúðir í náran. SJúklingurinn þarf svo að vera á rúmlegu í 3-4 klst eftir aðgerð. Sjúklingar útskrifast nær undantekningarlaust samdægurs. Eftir að heim er komið þarf að forðast áreynslu (lyfta þungum hlutum o.sv.fr.) í um viku. Að því loknu á sárið í náranum að vera að fullu gróið  og óhætt er að taka upp íþróttaiðkun og fulla vinnu. Þeir sem vinna létt störf eða eru í skóla geta yfirleitt farið aftur til starfa e 2-3 daga ef varlega er farið. Algengt er að sjúklingar finni aðeins fyrir náranum fyrst á eftir, eða eru með litla kúlu (á stærð við baun) á stungustað. Eftirlit er yfirleitt í höndum þess hjartalæknis sem sendir tilvísun fyrir sjúkling.

Fylgikvillar við brennslu-/frystiaðgerðir eru afar fátíðir eða um 1%. Algengustu fylgikvillar eru mar í nára, verkir í brjóstkassa, blæðing í gollurshús eða truflun á leiðni milli gátta og slegla.

 

SVT getur verið af ýmsum toga. Oftast er ekki vitað nákvæmlega hvernig truflun er til staðar, en almennt er árangur um 90% af slíkum aðgerðum. Hér að neðan er aðeins nánari umfjöllun um undirflokka og árangur.

 

Gáttasleglahnútahringsól (e.atrioventricular nodal reentry tachycardia, AVNRT)

Þetta er algengasta tegund SVT.  Truflunin er aðeins algengari hjá konum og einkenni koma gjarnan fram á unglingsárum, en geta líka byrjað síðar á ævinni (40-60 ára). Við AVNRT er um að ræða hringsól aðlægt leiðslukerfi hjartans. Hjá þessum sjúklingum eru tvær brautir sem leiða boð frá efri hólfum (gátta) til þeirra neðri (slegla). Hringsól í þessum brautum veldur hraðslætti. Meðferðin felst í að brenna eða frysta hægu brautina. Meðferðin heppnast í um 95% tilvika og áhætta á fylgikvillum öðrum en mari í nára er afar lítil (<1%).

Aukabrautir:

Þetta er næst algengasta tegund SVT og er aðeins algengari hjá karlmönnum. Hér er um að ræða auka-leiðnibraut milli gátta og slegla sem getur valdið hraðtakti. Stundum sést brautin á línuriti í hvíld og er þá gjarnan talað um Wolff-Parkinson-White heilkenni (WPW). Meðferðin felst í að leita aukabrautina uppi og brenna eða frysta. Meðferðin heppnast í rúmlega 90% tilvika og tíðni fylgikvilla er lág (<1%)

Gáttahraðtaktur:

Er fremur sjaldgæf orsök SVT. Hér er truflun sem getur átt upptök sín hvar sem er í gáttunum og meðferðin felst í að leita svæðinu sem veldur hraðtaktinum og brenna. Meðferðin heppnast í um 80% tilvika. Eins og við aðrar tegundir brennsluaðgerða við SVT,  er tíðni fylgikvilla lág (<1%).

Til að fyrirbyggja gáttatif er brennsluaðgerð áhrifaríkasta leiðin. Lyf skila árangri í um 30-40% tilvika en brennsluaðgerð 70% tilvika. Þó er mismunandi eftir hegðun/tegund gáttatifs hvort brennsluaðgerð sé árangursrík. Til að mynda er hún mun árangursríkari sé henni beitt snemma, þ.e. þegar gáttatif er hviðukennt (kemur og fer af sjálfu sér) en þegar það er orðið viðvarandi. Auk þess hafa aðrir þættir áhrif á útkomuna, t.d. léleg blóðþrýstingsstjórnun, mikil áfengisneysla, hreyfingarleysi o.fl. neikvæð áhrif á útkomuna.

Ekki er ábending fyrir brennsluaðgerð ef gáttatifið er einkennalaust, þar sem tilgangur meðferðarinnar er að draga úr einkennum. Ekki hefur verið sýnt fram á með öruggum hætti að brennsluaðgerð við gáttatifi hafi áhrif á lifun og horfur sjúklinga. Undantekning eru sjúklingar með hjartabilun (skert útfallsbrot hjarta), þar hefur brennsluaðgerð sýnt fram á bætta lifun. Ekki er heldur raunhæft að sjúklingar upplifi aldrei gáttatif á ný, fremur á að líta á aðgerðina sem lið í að fækka köstum og gera þau einkennaminni.

Gáttatif á sér oftast upptök í lungnabláæðum sem liggja frá lungum og inn í vinstri gátt hjartans. Aukaslög þaðan setja gáttatif af stað. Með því að einangra þessar æðar, ýmist með brennslu eða frystingu er hægt að koma í veg fyrir gáttatif. Oft nær vefurinn sem er brenndur/frystur að jafna sig þegar frá líður og þarf þá stundum að endurtaka aðgerðina. Árangur einnar brennslu-/frystingar við hviðukenndu gáttatifi er um 70-80% en 50-60% við langvarandi gáttatifi. Við langvarandi gáttatifi þarf oft að brenna meira en einungis í kringum þessar æðar.

Aðgerðin er gerð í svæfingu á Hjartaþræðingarstofu Landspítalans við Hringbraut. Nokkrum dögum fyrir aðgerð fara sjúklingar í tölvusneiðmynd af hjarta og ómun af hjarta um vélinda. Allir þurfa að vera á blóðþynningu en yfirleitt er sleppt einum skammt af gjöf hennar að morgni aðgerðardags. Inngripið tekur að jafnaði eina og hálfa klukkustund. Helstu fylgikvillar eru blæðina/mar í nára (2%), rof á hjartavegg (1%), blóðtappar (0,5%), lömun á þindartaug (1%), þrenging á lungnabláæð (0,1%), lífshættulegir fylgikvillar (<0,1%).

Að lokinni aðgerð dvelja sjúklingar ýmist á Sjúkrahóteli eða Hjartadeild Landspítala yfir nótt. Fyrri heimferð er tekinn saumur úr nára og gerð ómskoðun af hjarta.

Yfrileitt eru sjúklingar látnir vera á óbreyttri lyfjameðferð fyrstu 3 mánuðina eftir aðgerð. Ekki er óalgengt þó aðgerðin hafi tekist vel að finna fyrir gáttatifi áfram meðan þau ör sem sköpuð eru með brennslu/frystingu eru að gróa.

Að 2-3 mánuðum liðnum eftir aðgerð fara sjúklingar í Holter og hitta þann sem framkvæmdi aðgerðina í kjölfarið. Þá er yfirleitt byrjað á að minnka eða trappa út taktstillandi meðferð.

Fræðslumyndband um aðgerðir vegna gáttatifs.

 

Gangráður er tæki sem örvar hjartað með rafboðum og heldur þannig uppi takti (hjartslætti) þegar þörf er á.
Helstu ástæður fyrir meðferð með gangráð eru í fyrsta lagi sjúkdómar í sínushnút hjartans þar sem púls verður of hægur með einkennum svo sem mæði, svima og yfirliðum, í öðru lagi sjúkdómar í torleiðnihnút hjartans með svipuðum einkennum.

Tækið samanstendur af púlsgjafa (batteríi) sem komið er fyrir yfir brjóstvöðva sjúklings, undir húð og leiðslum sem liggja til hjartans, yfirleitt einni til hægri gáttar og einni til hægri slegils. Aðgerðin fer fram í staðdeyfingu og slævingu. Helstu fylgikvillar aðgerðarinnar eru mar eða blæðing á aðgerðarsvæði, loftbrjóst, sýking, rof á hjartavöðva og þörf á enduraðgerð þar sem leiðslur losna. Þessir fylgikvillar eru sem betur fer fremur fátíðir.

Gangráðinn er síðan hægt að stilla á ýmsa vegu til að mæta þörfum sjúklings og sjá til að hjartsláttarhraði mótsvari þörfum líkamans.

Fylgst er með sjúklingum með gangráð á gangráðsmóttökum sjúkrahúsa, yfirleitt einu sinni til tvisvar á ári, eða þá með fjarvöktun. Yfirleitt endist púlsgjafinn í 8 til tíu ár og er þá skipt um hann, leiðslurnar duga mun lengur.

Bjargráður (ICD) er tæki sem auk þess að virka eins og hefðbundinn gangráður getur gefið frá sér rafstuð og þannig meðhöndlað alvarlegar hjartsláttartruflanir. Tækið er nokkuð stærra en gangráður en er komið fyrir á sama hátt og venjulegum gangráð.

Bjargráður er græddur í sjúklinga í aukinni hættu á að fá alvarlegar takttruflanir frá sleglum hjartans eða hjá þeim sem lifað hafa af hjartastopp eða hættulegar takttruflanir frá sleglum. 

Tækið er stillt þannig að það nemur hraða og útlit rafboða hjartans. Nemi tækið alvarlega hjartsláttartruflun reynir tækið að örva hjartað hraðar en takttruflnunin. Með því er hægt að koma hjartanu í réttan takt án þess að sjúklingur verði mikið var við það. Takist það ekki gefur tækið frá sér stuð. Hafi sjúklingur ekki misst meðvitund þegar stuðið kemur þá finnur hann fyrir kröftugu rafstuði í brjóstinu, eins og að fá kröftugt högg í brjóstið.

Mikilvægt er að sjuklingar með bjargráð forðist sterkt segulsvið í námunda við tækið sjálft, þá er mikilvægt að geyma ekki málmhluti yfir tækinu, t.d. farsíma í brjóstvasa yfir tækinu.

Tækið getur gefið frá sér hljóð, oftst píp eða sírenuvæl og er þá nauðsynlegt að hafa samband við gangráðsmóttöku sjúkrahúsa, annars eru allir bjargráðar á Íslandi með fjarvöktun.

Púlsgjafi bjargráða dugir aðeins skemur en gangráða og er skipt um þá á sama hátt.

Við rafvendingu er gefið stuð yfir hjartað til að stilla af takttruflun eins og gáttatif og gáttaflökt. Rafvendingu er einnig beitt við meðferð sleglahraðtakts og ofansleglahraðtakt en mun sjaldnar. Rafvending er aðgerð sem gerð er í 5-10 mín svæfingu en án þess að gerð sé barkaþræðing eða slanga sé sett í öndunarveg. 

Hjá sjúklingum með gáttatif eða gáttaflökt má gera ráð fyrir um 80-90% árangri af rafvendingu, en stundum er árangurinn bara til skamms tíma. Stundum getur þurft að breyta lyfjameðferð til að hægt sé að framkvæma rafvendingu á árangursríkan hátt og/eða til að ávinningurinn endist.

Fyrir rafvendingu þurfa sjúklingar að vera á fullri blóðþynningu með blóðþynningarlyfjum í að minnsta kosti 3 vikur og svo áfram eftir rafvending að lágmarki 3 vikur, en oftast varanlega.

Fyrir rafvendingu eru teknar blóðprufur og línurit til að staðfesta takttruflunina.

Eftir rafvendingu er algengt að það taki um eina klst að jafna sig eða þar um það bil, og að því getur fólk útskrifast heim. Þú getur ekki keyrt sjálfur þennan dag (vegna svæfingarinnar).

Rafvending er mjög örugg aðgerð sem tekur stutta stund og er hægt að endurtaka eftir þörfum. 

Aukaverkanir af rafvendingu geta verið:

  • Blóðsegi/heilablóðfall
  • Takttruflanir (sér í lagi hægtaktur)
  • Húðroði/bruni eftir rafskautin.
  • Harðsperrur

Stundum dugar ekki að taka hjartalínurit eða Holter hjá sjúklingum til að greina eða útiloka hjartsláttartruflanir. Þá er möguleiki á að græða í sjúklinga taktnema. Neminn er lítið tæki sem komið er fyrir undir húð sjúklingsins, ígræðslustaðurinn er yfir fjórða rifbeini til hliðar við bringubein. Ígræðslan er minniháttar inngrip sem gert er í staðdeyfingu, gerður er lítið skurður og tækinu komið fyrir undir húðinni, yfirleitt lokað með einu spori.

 

Tækið er á stærð við litið USB minni, því fylgja engar leiðslur til hjartans og hefur engin áhrif á hjartað, þa ð einungis tekur upp takt hjartans. Það endist yfirleitt í 2-3 ár og er tekið út að þeim tíma liðnum eða þegar greining liggur fyrir.

 

Tækið er stillt þannig að það tekur upp hjartsláttinn sjálfkrafa ef hann verður of hægur eða hraður samkvæmt mati læknis, einnig ef eyður/pásur koma í hjartsláttinn, þetta er vistað í tækinu og hægt að lesa af með ákveðnu tæki auk þess sem gögnin eru send sjálfkrafa til lækna. Einnig geta sjúklingar stutt á hnapp þegar þeir finna fyrir einkennum.

4.Eigin heilsa:

Nú til dags eru flestar blóðþrýstingsmælingar framkvæmdar með stafrænum mælum. Á læknastofum eru stundum notaðir kvikasilfursmælar sem eru nákvæmari, en sérstakrar þjálfunar þarf til að nota þá og þeir henta ekki til heimamælinga.

Stafrænir mælar sýna yfirleitt efri mörk (e. SYSTOLE, SYS), neðri mörk (e. DIASTOLE, DIA) og púls (e. PULSE, P).

Ef þú ert með háþrýsting (eða ert í áhættuhópi) er mikilvægt að fylgjast sjálfur með blóðþrýstingi heima. Þá er vert að hafa þessi atriði í huga.

Kauptu vandaðan mæli. Í flestum apótekum og raftækjaverslunum fást góðir mælar. Flestir eru með minni yfir síðustu mælingar og sumir geta flutt gögnin í síma þinn um þar til gert smáforrit (app). Það er líka hægt að skrá tölurnar í bók, tölvu eða síma sinn til að hafa við hendina þegar farið er til læknis.

Bestu mælarnir eru með belg sem fer utan um upphandlegg. Mælar sem fara um úlnlið eru ekki jafn nákvæmir og ekki er mælt með notkun á þeim. Mikilvægt er að belgurinn passi utan um þinn handlegg og þeir eru til í mörgum stærðum. Fáðu aðstoð þar sem þú kaupir mælinn til að fá mæli sem hentar þínum handlegg.

Þegar blóðþrýstingur er mældur skal gera það í hvíld. Ekki skal tala eða horfa á sjónvarp. Best er að slaka á í 5 mínútur áður er mælt er. Mæla skal amk 2-3 sinnum og miðgildi tekið.

Gott er að mæla sig stundum að morgni (fyrir töku lyfja) og stundum að kvöldi (um 2 klst eftir kvöldmat). Mikilvægt er að skrá tölur og skrifa hjá sér ef maður finnur einhver einkenni (eins og t.d. svima).

Gott er að hafa reglu á mælingum, og mæla sig gjarnan 1-2x í viku. Gott er að mæla oftar ef lyfjum hefur nýlega verið breytt. Alltaf muna að skrá.

Ef þú skráir í bók þá er rétt að hafa dagsetning, tíma, efri mörk, neðri mörk, púls og einkenni (ef þau eru til staðar)

Að lokum er afar mikilvægt að taka mælingar með sér í hvert skipti sem farið er til læknis, til að hann geti leiðbeint þér sem best um réttu meðferðina fyrir þig.

Ráðlegt er að stilla neyslu sykurs og einfaldra kolvetna í hóf og neyta sem minnst viðbætts sykurs til að koma í veg fyrir sykursýki og þyngdaraukningu. Bendum á eftirfarandi ráðleggingar gerðar af Landspítala.

Offita og ofþyngd er að verða algengt vandamál á vesturlöndum. Á síðustu áratugum hafa heilsufarslegar afleiðingar offitu aukist mikið á Íslandi. Best er að grípa inn í ferlið snemma áður en ofþyngdin er orðin mikil. Meðferð við ofþyngd má skipta í mataræði, hreyfing, lyf og aðgerðir. Hér verður aðeins fjallað um mataræði.

Hér á eftir eru nokkur almenn ráð, en mjög mismunandi er milli einstaklinga hvað hentar viðkomandi best til að ná varanlegri þyngdarminnkun. Ef þú ert með sykursýki eða meltingarfæra sjúkdóma getur verið skynsamlegt að ráðfæra sig við sinn lækni fyrst.

Kauptu góða vog. Það er nauðsynlegt að eiga góða vog sem maður getur treyst. Til þess að hún geri gagn þarf maður líka að nota hana. Best er að skrá þyngd sína daglega/vikulega og grípa strax inn í ef eitthvað er að fara á verri veg. Einnig getur verið gott að reikna út líkamsþyngdarstuðul sinn.

Líkamsþyngdarstuðull á milli 18,5-25 er eðlilegur. 25-30 er væg yfirþyngd. 30-35 er offita og yfir 35 er mikil offita. 

Minnkaðu neyslu kolvetna. Aukin neysla kolvetna hefur átt stóran hlut í þeirri bylgju offitu sem nú ríður yfir heiminn. Kolvetni eru að finna í miklu magni í öllum sykri, hveiti, kartöflum,hrísgrjónum og pasta. Reyndu að minnka neyslu kolvetna. Ekki þarf að hætta alveg,en það má minnka kartöflur úr 4 í 2, brauðsneiðar í 1 í stað 2 og svo framvegis.

Borðaðu meira grænmeti. Allt grænmeti sem vex ofan jarðar (kál, gúrkur, spergilkál, blómkál og tómatar) er afar næringamikið og hollt. Skiptu endileg út kolvetnaríku meðlæti (eins og kartöflur) fyrir grænt grænmeti.

Borðaðu mat. Ekki borða skyndibita og samlokur þó það sé fljótlegt og bragðgott. Reyndu að borða fjölbreytta fæðu, helst eldaða frá grunni og forðastu unnin mat (eins og kjötfars, pylsur) eins og unnt er.

Forðastu gervisykur. Gervisykur viðheldur sykurþörfinni. Reyndu frekar að drekka vatn með mat og slepptu diet gosdrykkjum. Þeir æsa upp sykurþörf sem getur verið erfitt að standast.

Borðaðu hægar. Oft borðum við svo hratt að líkaminn okkar nær ekki að senda boð til heilans um að seddu hefur verið náð og því hættir okkur til að borða yfir okkur. Borðaðu því hægar. Fáðu þér einu sinni á diskinn og ekki fá þér meira fyrr en amk 20-30 mín eftir að þú klárar af diskinum.

Slepptu máltíðum sem þú þarft ekki. Það er allt í lagi að sleppa úr máltíð ef þú ert ekki svangur. Til dæmis er hægt að sleppa morgunmat. EInnig væri hægt að sleppa hádegismat. Hreyfing stuttu fyrir máltíð getur líka dregið úr hungri.

Ekki vera að snarla á kvöldin. Og ekki borða sælgæti. Það er auðveldara að sleppa súkkulaðistykkinu en að hlaupa þá 5 kílómetra sem þarf til að brenna þeirri umframorku.

Ekki fara í megrun. Það geta langflestir létt sig um 5-10 kíló með stífri megrun. Hins vegar kemur þetta allt til baka um leið og maður gefst upp. Betra er að breyta smátt og smátt venjum sínum og finna sér mataræði og lífsstíl sem maður heldur út til lengdar, þó árangurinn sé mun hægari. Horfðu á þetta sem langhlaup en ekki spretthlaup. 

Settu þér raunhæf viðmið. Það er erfitt að léttast. Ef þér tekst að léttast um 5-10 kíló, þá er það frábær árangur sem oftast hefur mælanleg áhrif á heilsu þína. Vertu ánægður með það í stað þess að vera svekktur með að hafa ekki náð einhverju markmiði sem þú settir þér.

Fáðu sérfræðiaðstoð. Það er mjög erfitt að létta sig. Sérstaklega er erfitt að breyta um venjur. Ef einföld ráð eins og að ofan duga þér ekki, er hægt að leita til næringarráðgjafa sem er að finna á flestum heilsugæslustöðvum. Ef offitan er mikil og hefur veruleg áhrif á heilsu þína, er líka hægt að ræða við heimilislækni um lyfjameðferðir og/eða aðgerðir.

Hreyfing er mikilvægum öllum til að viðhalda góðu líkamlegu og andlegu heilbriðgði og til að fyrirbyggja sjúkdóma. Þetta er sérstaklega mikilvægt hjá þeim sem hafa áhættu á hjartasjúkdómum, þar sem regluleg hreyfing dregur úr líkum á hjartasjúkdómum. Þá
 bætir regluleg hreyfing horfur þeirra sem þjást af hjartasjúkdómum.

Þó ber að hafa í huga að sjúklingar sem þjást af alvarlegum hjartasjúkdómum ættu að leita ráða hjá lækni eða sjúkraþjálfara um hæfilega hreyfingu.

Lágmarkshreyfing á viku er 150 mínútur af hreyfingu eða 75 mínútur af kröftugri hreyfingu. Þetta getur verið hreyfing af ýmsum toga t.d. röskir göngutúrar, hlaup, sund, hjólreiðar, styrktarþjálfun o.fl.

Lífsstíll hefur mikil áhrif á það hvort einstaklingar fái gáttatif. Auk þess hefur lífsstíll áhrif á tíðni og alvarleika kasta hjá sjúklingum sem þegar hafa þróað með sér gáttatif.

Ofþyngd

Ofþyngd er sterkur áhættuþáttur fyrir gáttatif. Sjúklingar sem eru of þungir upplifa einnig tíðari og lengri köst af gáttatifi. Auk þess verður meðferð við gáttatifi oft flóknari þar sem ýmis inngrip verða áhættusamari. Mikilvægt er því fyrir fólk í yfirþyngd að leita allra ráða til að léttast og er makmiðið að ná líkamsþyngdarstuðli (BMI) undir 27. Þetta er ekki auðvelt verk fyrir okkur flest og auk aukinnar hreyfingar og betra mataræðis þarf oft að koma til önnur meðferð. Sem dæmi um slíka meðferð er lyfjameðferð, sjá umfjöllun um Saxenda og í erfiðustu tilfellunum skurðaðgerð.

Hreyfing

Líkt og við alla hjartasjúkdóma dregur regluleg hreyfing úr hættunni á að fá gáttatif. Þó má benda á að hreyfing sem er gríðarlega mikil svo sem hjá keppnisfólki í úthaldsgreinum (maraþon, hjólreiðar, skíðaganga o.fl) getur aukið hættuna á gáttatifi. Mælt er með a.m.k. 150 mínútna hreyfingu á viku. Dæmi um slíka hreyfingu eru fjallgöngur, röskir göngutúrar, hlaup,hjólreiðar, sund, lyftingar o.fl.

Hár blóðþrýstingur

Mikilvægt er að halda blóðþrýstingi innan viðmiðunarmarka, sjá einnig kafla um háan blóðþrýsting.

Sykurrsýki

Góð blóðsykurstjórnum hjá sjúklingum með sykursýki er mikilvæg til að forðast gáttatif líkt og aðra sjúkdóma sem geta verið fylgikvillar sykursýki.

Kæfisvefn

Sjúklingar með kæfisvefn eru í aukinni áhættu á að fá gáttatif. Meðhöndlun á kæfisvefni dregur úr tíðni kasta. Einkenni kæfisvefns geta verið hár blóðþrýstingur, dagsyfja, höfuðverkurr að morgni o.fl. Ef grunur er um kæfisvefn er hægt að undirgangast kæfisvefnsmælingu hjá lækni.

Aðrir áhættuþættir

Forðast reykingar og áfengi. Mælt er með algeru reykbindindi. Mælt er með að draga úr áffengisneyslu. Hjá þeim sjúklingum þar sem klárt orsakasamband er milli neyslu áfengis og gáttatifs skal íhuga algert bindindi. Neysla á Omega og ýmsum öðrum fitusýrum getur aukið hættu á gáttatifi. Ekki er orsakasamband á milli neyslu á kaffi og gáttatifs.

Það hefur varla farið fram hjá neinum að áfengisneysla á Íslandi hefur breyst og aukist verulega síðustu áratugina. Áfengisneysla hérlendis jókst um 73% á árunum frá 1980 til 2016. Áfengisneysla hérlendis er svipuð og í Svíþjóð og Noregi, en heldur minni en í Danmörku og Finnlandi.

Það hafa verið skiptar skoðanir um gagnsemi hóflegrar áfengisneyslu á heilsuna. Einnig hafa menn deilt um hvort vissar tegundir áfengis (t.d. rauðvín) hafi betri áhrif á heilsuna en aðrar tegundir. Í stuttu máli þá hefur ekki verið sýnt framáþað með sannfærandi hætti að ein tegund áfengis sé betri eða verri en önnur, en aðal máli virðist skipta að neyslan sé hófleg. Einnig eru rannsóknir á þessu sviði þess eðlis að ekki er hægt að slá föstu orsakasambandi milli áfengisneyslu og gagnsemi/skaðsemi. Einungis er hægt að fylgjast með hvort uppgefin neysla einstaklinga tengist þessum þáttum. 

Hvað telst hófleg neysla? Best er að gera sér grein fyrir hvað ein áfengiseining er mikið. Ein áfengiseining jafngildir litlum bjór eða rauðvínsglasi eða 4 cL af sterku áfengi. Almennt er talað um að karlmenn sem neyta innan við 2-3 áfengiseininga á dag, eða konur sem neyta innan við 1-2 áfengiseininga á dag séu að nota áfengi hóflega.

Áhrif hóflegrar áfengisneyslu á hjartasjúkdóma eru almennt jákvæð. Það virðist vera lægri áhætta á kransæðasjúkdómi og hjartaáföllum hjá þeim sem nota áfengi hóflega, en mikið neysla yfir langan tíma er afar skaðleg hjartanu. Gáttatif virðist vera svolítil undantekning, þar sem jafnvel lítil neysla áfengis virðist geta aukið tíðni gáttatifskasta. Það er mjög breytilegt á milli einstaklinga með gáttatif hversu mikið áfengi þeir geta neytt, en hjá vel flestum þá leiðir mikil neysla áfengis til tíðari gáttatifskasta.

Áfengisneysla virðist geta aukið tíðni vissra krabbameina (eins og sortuæxla, brjóstakrabbameins og krabbameina í blöðruhálskirtli). Hins vegar hefur sést lægri tíðni vissra æxla, eins og eitlakrabbameina, blöðrukrabbameina og nýrnakrabbameins. Þannig eru áhrif hóflegrar áfengisneyslu, eins og lýst er að ofan, mjög væg á tíðni krabbameina og heildartíðni krabbameina nokkuð óbreytt.

Óhófleg neysla áfengis getur fyrir utan slæm áhrif á hjarta, valdið sjúkdómum í heila, lifur, meltingafærum auk þekktra áhrifa á félagslega þætti eins og vinnu og fjölskyldu.

Samantekið, þá virðist hófleg áfengisneysla ekki vera skaðleg og getur verið gagnleg fyrir hjarta- og æðasjúkdóma. Dánartíðni þeirra sem neyta áfengis í hóflegu magni virðist ekki aukin og jafnvel aðeins lægri en þeirra sem ekki drekka. Hins vegar eru áhrifin lítil og engin ástæða fyrir þá sem ekki drekka að taka upp áfengisdrykkju vegna þessara litlu áhrifa.

Heimild https://academic.oup.com/eurheartjsupp/article/24/Supplement_I/I119/6823815?utm_medium=Email&utm_source=eTOC&utm_campaign=EuropeanHeartJournalSupplements

Ef þú ert með hátt kólesteról, hvort sem þú ert á lyfjameðferð eða ekki, þá eru nokkur góð ráð varðandi lífsstíl sem geta haft góð áhrif á hátt kólesteról eða háar blóðfitur.

  • Mataræði: Forðast skal mettaða fitu. Mettuð fita er t.d. í rauðu kjöti og feitum mjólkurvörum. Mettuð fita er hörð við stofuhita (t.d. pálmafeiti, dýrafita og smjör). Reyndu frekar að auka inntöku á ómettaðri fitu, sem er fljótandi við stofuhita. Eins getur Omega-3 fitusýrur (sem er í t.d. feitum fisk eins og lax og lýsi) haft góð áhrif á blóðfitur. Trefjar (sem eru í grófu brauði og grænmeti) hafa líka jákvæð áhrif á blóðfitur.
  • Hreyfing: Aukin hreyfing hækkar HDL kólesteról (góða kólesterólið) og hefur þannig góð áhrif á blóðfitur. Stefna skal að amk 30 min hreyfingu á dag (t.d. röskur göngutúr) eða ákafa hreyfing (spinning/hlaup/ræktin) amk 30 min, 3 sinnum  í viku.
  • Reykingar: Ef þú hættir að reykja hækkar líka HDL kólesteról (góða kólesterólið). Reykingar auka einnig verulega líkur á hjarta/æðasjúkdómum og krabbameinum auk lungnasjúkdóma.
  • Viktminnkun: Ef þú ert yfir kjörþyngd þá getur viktminnkun haft jákvæð áhrif á blóðfitur. Forðast skal kolvetnaríka fæðu og sykur eins og hægt er. Allur venjulegur heimilismatur er í lagi. Forðast sykraða drykki.

Áfengi: Ekki skal nota áfengi nema í hófi. Hófleg drykkja er 1 glas af rauðvíni eða einn bjór á dag eða minna.

Ef þú hefur greinst með háan blóðþrýsting eða ef þú ert í áhættuhópi eru nokkrir hlutir sem geta haft góð áhrif á þinn blóðþrýsting. Þessar aðgerðir geta líka dregið úr fjölda lyfja sem þú þarft að nota.

Hreyfing er afar mikilvæg. Regluleg hreyfing (dagleg 20-30 mínútna rösk ganga eða álíka) skiptir miklu máli fyrir alla hjartaheilsu, þar með talið fyrir blóðþrýsting.

Þyngdartap getur verið mjög gagnlegt fyrir þá sem eru í yfirþyngd. Miða skal við 5-10% þyngdartap, hjá þeim sem eru í vægri til meðal mikilli yfirþyngd. Ef um mikla yfirþyngd er að ræða, getur veið skynsamlegt að ræða við heimilislækni um önnur viðmið og meðferðir til að stuðla að þyngdartapi.

Áfengisnotkun getur haft mjög skaðleg áhrif á æðakerfið. Ef neytt er fleiri en 3-4 áfengra drykkja í viku, getur minnkuð neysla haft góð áhrif á blóðþrýsting

Nikótínneysla og reykingar hafa slæm áhrif á háþrýsting. Nikótín er mjög æðaherpandi efni og mælt er með að fólk með háþrýsting forðist reykingar og notkunar á nikótínvörum.

Kaffi og te inniheldur koffín. Í litlu magni eru áhrifin lítil en þeir sem drekka mikið af drykkjum sem innihalda koffín geta fengið hækkaðan blóðþrýsting af þess völdum. Þeir sem eru með háþrýsting ættu því að sneiða hjá, eða nota koffíndryggi í miklu hófi.

Mikil neysla salts getur haft áhrif til hækkunar á blóðþrýstingi. Það er skynsamlegt a forðast að borða saltan mat og alls ekki nota viðbótar salt. Athugið að tilbúin matur og matur á veitingahúsum inniheldur oft mikið salt og best er að elda allan mat frá grunni.

Lakkrís hefur veruleg blóðþrýstingshækkandi áhrif. Ef þú ert með háan blóðþrýsting skaltu forðast lakkrís eins og hægt er.

Tími hjá hjartalækni á stofu er oftast um 15 mínútur. Í þeim tíma er tekið hjartalínurit, tekin sjúkrasaga og eftir atvikum gerð stutt skoðun. Að lokinni heimsókn skráir læknir þinn í sjúkraskrá þína.  Til að tíminn nýtist sem best fyrir þig er gott að hafa nokkur atriði í huga og skrá niður fyrir heimsóknina. Í flestum tilfellum er það heimilislæknir eða annar sérfræðingur sem hefur sent tilvísun og í henni geta verið gagnlegar upplýsingar, en stundum eru þær takmarkaðar og jafnvel úreltar.

Þess vegna er gott að gera lista með eftirtöldu eins og við á:

  1. Öll lyf sem þú tekur og skammtastærðir
  2. Öll ofnæmi eða óþol fyrir lyfjum
  3. Eru lyf sem þú hefur notað við hjartasjúkdóm sem var ekki að virka, eða olli aukaverkun?
  4. Er ættarsaga um hjartasjúkdóma hjá þínum nákomnu ættmennum(systkinum, foreldrum, börnum)
  5. Hvaða rannsóknir á hjarta hefur þú undirgengist, og hvar var rannsóknin gerð? Hjartaómskoðun, tölvusneiðmynd af hjarta og hjartaþræðing eru dæmi um rannsóknir.
  6. Hefur þú undirgengist aðgerð tengda hjartasjúkdómi? Kransæðavíkkun, kransæðaaðgerð, hjartalokuaðgerð, gangráður og brennsluaðgerð eru dæmi um aðgerðir tengdar hjarta.
  7. Hvaða aðra sjúkdóma hefur þú? Sykursýki, háþrýstingur, æðaþrengingar í fótum, æðagúlpar og heilablóðfall eru dæmi um sjúkdóma sem er mikilvægt að komi fram.
  8. Ef þú hefur tök á að gera heimamælingar á blóðþrýstingi er afar gagnlegt fyrir þinn lækni að þú hafir slíkar tölur meðferðis. Þetta á við alla sem koma til hjartalæknis, en sér í lagi fyrir þá sem eru með háan eða lágan blóðþrýsting. SJá kafla ofar um framkvæmd heimamælinga
  9. Ef þú ert með takttruflanir og hefur skráð þær á t.d. Garmin/Apple úr, getur verið gagnlegt að hafa slíkar útprentanir meðferðis.
  10. Ef þú ert með niðurstöður rannsókna í þínum fórum getur verið gagnlegt að hafa þær útskriftir meðferðis.

Þetta er auðvitað ekki tæmandi listi, en eykur líkurnar á að viðtalið verði gagnlegt og gefandi fyrir þig, og ekki verði óþarfa töf á greiningu og meðferð þinna vandamála.